„Þurfum að taka við keflinu“

Runólfur er yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum og formaður Félag íslenskra …
Runólfur er yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum og formaður Félag íslenskra lyflækna.

„Ég er ánægður með þetta framtak ráðherra, þetta er í samræmi við það sem við höfum haldið á lofti varðandi það sem þarf að gera hér á spítalanum, þar á meðal varðandi starfsumhverfi og stýringu verkefna,“ segir Runólfur Pálsson, formaður Félags íslenskra lyflækna, um yfirlýsingu heilbrigðisráðherra og forstjóra Landspítala um aðgerðir til að bæta stöðu lyflækningasviðs spítalans sem kynnt var á blaðamannafundi á Landspítalanum í morgun.

Aðalatriðið að bæta strax úr manneklunni

„Þetta er markviss og skynsamleg byrjun á þessu verkefni,“ segir Runólfur og bætir við að framundan sé stórt og viðamikið verkefni að koma málum á spítalanum á réttan kjöl til framtíðar. „Þetta hefur átt sér langan aðdraganda og það er oft þannig að þegar hlutirnir eru komnir á bjargbrúnina að menn taka loks við sér.“

„Aðalatriðið er að bæta strax úr þessari manneklu,“ segir Runólfur. „Við þurfum að fá til liðs við okkur unga lækna til að stunda nám og þetta þarf að gera samstundis. Ég vona að þetta skjóta framtak ráðherrans verði til þess að fólk hafi trú á þessu verkefni og við náum að skapa viðeigandi námsaðstæður. Þetta er sterk yfirlýsing um að málum verði snúið við.“

Runólfur segir að þau atriði sem voru áberandi í gagnrýni á núverandi ástand hafi til að mynda snúið að starfsumhverfi og manneklu. „Þetta er mjög gott framtak til að skapa aðstoð til að þróa málið áfram,“ segir hann.

Boltinn hjá starfandi læknum og kennurum

Í yfirlýsingunni er gert ráð fyrir að Landspítalinn skili heilbrigðisráðherra sérstakri aðgerðaráætlun eigi síðar en 20. september næstkomandi.

„Boltinn er hjá okkur sem eru starfandi læknar og kennara á spítalanum að taka við þessari yfirlýsingu og útfæra hana á fullnægjandi hátt,“ segir Runólfur. „Það er spurning hvort okkur hér tekst að blása lífi í þetta verkefni sem er okkar að framkvæma. Ungir læknar hafa að vissu leyti misst trú á þessum námsvettvangi. Við þurfum að taka við keflinu og sjá hvernig þessu vindur fram.“

Yfirlýsingin sem lögð var fram í morgun.




mbl.is