Viðbragðsáætlun ekki aflétt

Síðastliðin mánaðarmót var virkjuð sérstök viðbragðsáætlun vegna læknaskorts á lyflækningasviði Landspítalans. Um 10 deildarlæknar sinna nú vinnu sem ætluð er 25 manns á sviðinu. Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, segir að ekki verði hægt að aflétta ástandinu strax. Þeir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, kynntu í morgun aðgerðir sem miða að því að bæta stöðu lyflækningasviðs spítalans.

„Þessi áætlun gengur út á að laga til miðlungs styttri tíma og lengri tíma, þetta þarf tíma til þess að vinnast,“ segir Björn.

Hvenær verður hægt að bregðast við þessu ástandi?

„Það er verið að bregðast við þessu ástandi á margan hátt innan spítalans, með breyttu vinnulagi og hvernig er unnið og hvernig er farið með sjúklinga og ýmislegt annað. Það er ekki þar með sagt að það sé ekkert verið að gera,“ segir Björn. „Til miðlungslengri tíma séð þá er strax byrjað á því að reyna að leysa það, en þetta þarf sinn tíma til að leysa.“

Er ekki verið að flytja álagið yfir á aðra?

„Það er verið að dreifa álaginu,“ segir Björn. „Svo má ekki gleyma því að álagið minnkar þegar það verða færri sjúklingar inni á spítalanum. Nú þegar eru um 50 til 60 sjúklingar sem eru búnir að bíða lengi hjá okkur, allt að meðaltali fimmtíu daga áður en þeir komast að viðeigandi hjúkrunarheimili. Ef það minnkar, þá verður tími fyrir alla.“

Þegar þessir sjúklingar fara út af spítalanum, þá verði álagið jafnara?

Það verður bæði jafnara og líka með því að vinna öðruvísi.

En hvenær sjáið þið fram á að þessir sjúklingar fari út af spítalanum?

Þeir fara reglulega út af spítalanum, en hvenær þessi haugur minnkar hjá okkur, það getum við ekki séð, það tekur einhverja tvo til þrjá mánuði að koma þessu af stað.

En hvar gerið þið ráð fyrir að koma þessum sjúklingum fyrir?

Það munum við vinna í samráði við heilbrigðisstjórnvöld.

mbl.is