Tímabært að endurskilgreina verksvið heilbrigðisstétta

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að leitað er lausna á þeim vanda sem lyflæknissvið Landspítala stendur nú frammi fyrir.

Stjórn Fíh telur löngu tímabært að endurskilgreina verksvið allra heilbrigðisstétta þannig að sú þekking, menntun og færni sem hver stétt býr yfir sé nýtt til fullnustu. Mikilvægt er að vanda vel til þessarar vinnu. 

Nú þegar er vinnuálag hjúkrunarfræðinga gríðarlegt og hefur verið viðvarandi undanfarin ár. Stjórn Fíh varar við því að auka vinnuálag á hjúkrunarfræðinga LSH eins og starfsumhverfið er í dag og telur það geta ógnað öryggi sjúklinga og gæðum þeirrar þjónustu sem hjúkrunarfræðingar veita.

Stjórn Fíh fagnar því að stjórnendur LSH telji að nýta megi menntun, þekkingu og færni hjúkrunarfræðinga betur, en til að hjúkrunarfræðingar geti bætt á sig verkefnum, þarf að tryggja þeim aukið svigrúm í vinnu. Því þarf að vanda til þessarar vinnu með nánu samstarfi við hjúkrunarfræðinga og nýta gögn um vinnuálag, hjúkrunarþyngd og starfsumhverfi sem fyrir liggja innan Landspítala.

mbl.is