Lögfræðingur tveggja karlmanna, sem dæmdir voru til dauða síðastliðinn föstudag fyrir hópnauðgun á indverskri námskonu í desember síðastliðnum sem leiddi til þess að hún lét lífið, kann að missa réttindi sín til að starfa sem lögmaður vegna ummæla sem hann lét falla í kjölfar þess að dómurinn yfir mönnunum var kveðinn upp. Tveir aðrir menn voru einnig dæmdir til dauða fyrir nauðgunina.
Fram kemur í frétt AFP að ummæli lögfræðingsins, A.P. Singhs, þyki lýsa kvenfyrirlitningu en hann sagði meðal annars við fjölmiðla að sjálfur hefði hann „brennt dóttur sína lifandi“ hefði hún verið „að stunda kynlíf fyrir hjónaband og þvælast úti á kvöldin með kærastanum sínum“.
Siðanefnd lögfræðingafélags Indlands fer nú yfir mál Singhs en með ummælum sínum var hann að vísa til fórnarlambsins sem var 23 ára þegar henni var nauðgað af karlmönnunum fjórum í strætisvagni en hún var þá að koma frá kvikmyndasýningu með kærastanum sínum. Konan lét lífið í kjölfarið vegna mikilla innvortis blæðinga. Siðanefndin fundar næstkomandi þriðjudag og verður málið þá tekið fyrir.