„Það má reyndar geta þess til gamans að samstarf Alþingis Íslendinga og Evrópuþingsins er eldra en aðildarumsóknin. Sameiginleg þingmannanefnd var til staðar áður en Ísland sótti um aðild en munurinn er kannski fyrst og fremst sá að þá var hist einu sinni á ári en ekki tvisvar.“
Þetta sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Valgerði Bjarnadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar. Spurði hún að því hvaða breytingar kynnu að verða á samstarfi Evrópuþingsins og Alþingis í ljósi þeirra breytinga sem orðið hefðu verðandi umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið.
Birgir sagði að ekki væri við því að búast að miklar breytingar yrðu þar á. Samstarf Evrópuþingsins og Alþingis hefði verið til staðar áður en umsóknin kom til sögunnar eins og áður segir og þá hefði Ísland haft áheyrnarfulltrúa í tengslum við hana á fundum svonefndum COSAC-fundum sem væru samráðsfundir þjóðþinga innan Evrópusambandsins og Evrópuþingsins.
„Varðandi þátttöku í COSAC erum við í þeirri stöðu að hafa áheyrnaraðild sem umsóknarríki í augnablikinu. Önnur ríki hafa áheyrnaraðild jafnvel þótt þau séu ekki umsóknarríki, t.d. Norðmenn. Verði breyting á formlegri stöðu Íslands geri ég ráð fyrir því að Ísland muni leita eftir að fá sömu stöðu og Noregur gagnvart þeim fundum, sagði hann.
Þá sagðist hann geta upplýst að mörg af þeim málefnum sem tekin hefðu verið fyrir á fundum sameiginlegrar þingmannanefndar Evrópuþingsins og Alþingis væru ekki beintengd umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið „og reyndar mundi ég hyggja að ef litið er á dagskrá síðustu funda nefndarinnar þá snýst meira en helmingur þess sem þar er rætt um aðra hluti en tengjast aðildarumsókninni beinlínis. Verði breytingu á stöðu Íslands sem umsóknarríkis er ekki þar með sagt að íslenskir þingmenn hætti að hitta þingmenn frá Evrópuþinginu. Það verður um nóg að tala engu að síður.“