Með aukinni fiskveiðistjórnun og þróun kvótakerfa hefur dregið úr ofveiði og hnignun fiskistofna í heiminum.
Þetta var meðal þess sem fram kom í framsöguerindi Ragnars Árnasonar, prófessors við Háskóla Íslands, við setningarathöfn ársfundar Alþjóðahafrannsóknaráðsins í Hörpu í gær. Ragnar fjallaði um fiskveiðar og fiskveiðistjórnun á heimsvísu, hvað hefur áunnist og hvaða áskoranir eru fram undan.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Ragnar að minnsta kosti 22 þjóðir hefðu tekið upp kvótakerfi í líkingu við það sem notað væri hér á landi. Þetta væru einkum vestrænar þjóðir sem öfluðu um fjórðungs af heimsaflanum. Íslenska kerfið væri fyrirmynd í þessum efnum, en Ragnar segir að kvótakerfið á Nýja Sjálandi sé enn fullkomnara og því frekar fyrirmynd annarra.