Sýn nemenda á LSH mjög neikvæð

mbl.is/Eggert

Einungis 13% nema á tveimur síðustu árum í læknis-, hjúkrunar-, lífeinda- og geislafræði og sjúkraþjálfun geta hugsað sér Landspítala sem sinn framtíðar vinnustað.

Þá sögðu aðeins 8% hafa jákvætt viðhorf til heilbrigðismála á Íslandi og helmingur nema hafði íhugað að flytja erlendis strax að loknu námi við Háskóla Íslands.

Þetta eru niðurstöður könnunar sem Sviðsráð heilbrigðisvísinda Stúdentaráðs HÍ stóð að. Fram kemur í tilkynningu að könnunin hafi verið lögð fyrir nemendurna í ljósi neikvæðrar umræðu í garð Landspítalans og heilbrigðismála á Íslandi.

Alls svöruðu 248 nemendur könnuninni, alls 72,3% nema á þessum námsárum, þar af 77 læknanemar og 121 hjúkrunafræðinemi. Könnuninni var ætlað að kanna viðhorf nema í þessum greinum til Landspítalans, heilbrigðismála á Íslandi og framtíðaráforma að námi loknu.

„Ef þessar niðurstöður eru túlkaðar er ljóst að framtíðar starfsfólk heilbrigðisgeirans á Íslandi hefur ekki áhuga á að að vinna við þær aðstæður og kjör sem einkenna Landsspítalann í dag. Þessi neikvæða sýn nemenda á stærsta vinnustað innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi er að mati okkar grafalvarleg.

Því er ljóst að bráðra aðgerða er þörf ef halda á uppi núverandi og framtíðar mönnun í heilbrigðisþjónustu á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi,“ segir í tilkynningu frá Ásdísi Örnu Björnsdóttur, formanni Sviðsráðs heilbrigðisvísindasviðs Stúdentaráðs HÍ.

mbl.is