Landspítalinn á nú inni rúmlega 1.100 milljónir í útistandandi kröfum og er hluti þeirra gjaldfallinn.
Um 270 milljónir eru skuldir einstaklinga við spítalann, skuldir á erlendum kennitölum eru um 190 milljónir og aðrar skuldir t.d. fyrirtækja og annarra heilbrigðisstofnana við spítalann nema 680 milljónum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítalans, segir skuldir einstaklinga við spítalann stundum töluvert þungar í innheimtu. „Það hefur stundum þurft að ganga eftir því að fólk borgi en síðustu ár hefur okkur fundist það ganga heldur tregar en áður. Fólk á erfiðara með að greiða auk þess sem nokkuð er um að fólk sé í greiðsluaðlögun og þá stoppar innheimtuferlið.“