Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir Björn Zoëga, sem sagt hefur upp störfum sem forstjóri Landspítalans, hafa verið öflugan og góðan stjórnanda á erfiðum tímum.
„Hann hefur sýnt mikla fagmennsku í störfum sínum, borið hag sjúkrahússins og hagsmuni sjúklinga fyrir brjósti og jafnframt tekist að halda rekstrinum í góðu horfi þrátt fyrir þröngan fjárhag. Ég færi honum bestu þakkir fyrir og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ er haft eftir Kristjáni Þór í fréttatilkynningu.
Ráðherra þakkar Birni fyrir öfluga forystu í krefjandi starfi á liðnum árum.
Björn hefur gegnt embætti forstjóra Landspítala í fjögur ár. Hann var skipaður forstjóri Landspítala í september 2010 en hafði áður verið starfandi forstjóri frá 15. september 2009 meðan þáverandi forstjóri var í starfsleyfi.
Skipaður verður starfandi forstjóri þar til ráðið verður á ný í embættið að undangenginni auglýsingu og hefðbundnu ráðningarferli samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Starfslokadagur Björns hefur ekki verið ákveðinn en hann mun verða starfandi forstjóra til aðstoðar á næstu vikum eftir þörfum.