Mikill missir fyrir Landspítalann

mbl.is/Heiddi

Eygló Ingadóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans, segir að brotthvarf Björns Zoëga, sem hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri LSH, sé mikill missir fyrir spítalann.

„Það er slæmt þegar gott fólk fer og Björn hefur staðið gríðarlega vel,“ segir Eygló í samtali við mbl.is. Hún bætir við að það sé afar mikilvægt að eftirmaður Björns sé heilbrigðisstarfsmaður. 

Björn segir í tilkynningu sem hann sendi til fjölmiðla og til starfsmanna sjúkrahússins, að honum sé ljóst að hvað Landspítalann varði þá sé nauðsynleg uppbygging ekki í augsýn.

„Það hljómar eins og það verði ekki farið í byggingu ný spítala og að það verði ekki bætt í í rekstri spítalans. Ég held að, ef það verður raunin þegar fjármálafrumvarpið verður kynnt, þá eru það grafalvarlegar fréttir fyrir spítalann og þá skil ég viðbrögð forstjóra mjög vel,“ segir Eygló og bætir við að Björns verði sárt saknað.

Hún segir að staða heilbrigðismála á Íslandi sé mjög alvarleg. „Það eru gríðarlega erfiðir tímar og ég held að þjóðin þurfi eitthvað samtal um hvað skipti máli rekstri þessa litla samfélags okkar,“ segir Eygló.

Frétt mbl.is: Björn Zoëga lætur af störfum

Eygló Ingadóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans.
Eygló Ingadóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans.
mbl.is