Ómar Sigurvin Gunnarsson, formaður almennra lækna, óttast að von sé á „enn frekari axarsköftum af hálfu íslenskra stjórnvalda í íslensku heilbrigðiskerfi“ og þar af leiðandi sé það rétt ákvörðun hjá Birni Zoëga að taka ekki þátt í þeim með því að láta af störfum sem forstjóri Landspítalans.
„Ég held að hann sé að stíga rétt skref, finnst mér. Það hefur verið deilt á stjórnendur spítalans og hann hefur sömuleiðis deilt á heilbrigðisyfirvöld fyrir að skera of mikið niður,“ segir Ómar í samtali við mbl.is.
„Mér sýnist á hans yfirlýsingu að það sé von á enn frekari axarsköftum af hálfu stjórnvalda í íslensku heilbrigðiskerfi. Ég hald að hann sé að taka rétta ákvörðun að ákveða að taka ekki þátt í því,“ segir hann ennfremur.
Björn segir í tilkynningu sem hann sendi til fjölmiðla og til starfsmanna sjúkrahússins, að honum sé ljóst að hvað Landspítalann varði þá sé nauðsynleg uppbygging ekki í augsýn.
Ómar segir ljóst að frumvarp til fjárlaga 2014 verði kynnt í næstu viku og því fari ekki á milli mála hvað Björn eigi við með þessum ummælum. „Mér sýnist að heilbrigðisyfirvöld ætli að halda áfram að gera mistök í þessum efnum og hann vill ekki halda því áfram,“ segir Ómar og bætir við að þetta sé gott skref hjá Birni.
Spurður út í framhaldið segir Ómar erfitt að sjá fyrir hvað taki nú við. „Mér finnst það sem stendur í þessu bréfi hans vera mjög alvarlegt og það lofar ekki góðu varðandi framhaldið,“ segir Ómar.
Hann segir að Björn hafi tekið þátt í að skera gríðarlega mikið niður og hagræða í rekstri spítalans. Ljóst sé að frekari aðhaldsaðgerðir séu á döfinni sem Björn treystir sér ekki til að taka þátt í. „Mér finnst það hrikalegar fréttir.“
Spurður almennt út í störf Björns segir Ómar: „Það hefur verið mikið vantraust á milli stjórnenda og starfsmanna spítalans. Það á við um okkur eins og aðra. Við höfum gagnrýnt stjórnendur spítalans fyrir að bregðast of seint við þeim hættumerkjum sem voru uppi. Það á við um Björn eins og aðra stjórnendur. Að því leytinu getur þetta alveg verið jákvætt skref ef þetta verður til þess að traustið á stjórnendum spítalans eykst. Það er bara erfitt að sjá hvort það gerist eða ekki,“ segir Ómar að lokum.