Ég er 45 ára gömul þriggja barna móðir sem dreymir um stærri brjóst en ég er svo hrædd um að líkaminn hafni sílikonpúðunum og svo fer um mig ónotatilfinning þegar ég hugsa um Pipp-púðamálið. Eru framleiðendur í dag ábyrgir fyrir brjóstapúðum og hvernig er best að snúa sér í þessu? Kveðja, frá einni 45 ára.
Sæl.
Það er algengur misskilningur að tala um „höfnun á sílikonpúðum“. Líkaminn hafnar aldrei beint sílikonpúðunum en hann myndar eins konar himnu utan um púðann. Oftast er þessi himna bara þunn og teygjanleg en hún getur þykknað og valdið því að púðinn verður harður og getur valdið óþægindum. Oftast er nóg að nudda brjóstið ef þessi himna þykknar annars þarf að fjarlægja himnuna í svæfingu (það er þó sjaldgæft) og setja púðann inn aftur. Örfáar konur eru óheppnar og geta lent endurtekið í þessu.
Það hefur orðið mjög mikil þróun á sílikoni sem notað er í brjóstapúða á undanförnum árum. Framleiðendur voru áður með 10 ára ábyrgð á púðunum og þar af leiðandi mæltu margir lýtalæknar með skiptingu á 10 ára fresti. Í dag eru stærstu framleiðendurnir með ævilanga ábyrgð á púðunum þannig að við lýtalæknar getum ráðlagt skjólstæðingum okkar að óþarfi sé að skipta ef allt er í lagi. Vissulega getur enn komið gat á himnuna utan um gelið en það er mjög sjaldgæft (1% yfir 8 ár). Í þessari ábyrgð ábyrgist framleiðandinn að útvega nýja púða í stað þeirra gömlu en ekki er borgað fyrir aðgerðina sjálfa eða svæfinguna. Í dag er gelið orðið mun þéttara og samheldnara í sér en áður og á að haldast saman þrátt fyrir að gat komi á himnuna utan um það.
PIP-púðarnir voru búnir til af litlum framleiðanda þar sem hluti af púðunum var gallaður, ekki voru notuð viðurkennd efni í framleiðsluna. Eftirlit með framleiðslunni misfórst og eftirlitsaðilar hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir. PIP-púðar og púðar sem notaðir eru í dag eru því í raun ekki sambærilegir.
Ég vona að þetta flókna svar hafi náð að svara einhverjum spurningum þínum um sílikonpúða. Ef þig dreymir um stærri brjóst og lítil brjóst trufla þitt daglega líf (klæðaburð, líkamsrækt/sund, samlíf o.s.frv.) þá er annaðhvort að sætta sig við eigin líkama eða láta slag standa og panta tíma hjá lýtalækni og fá álit hans á því hvort silikonpúðar gætu verið eitthvað fyrir þig. Gangi þér vel með ákvörðunina.
Með kveðju,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir Dea-Medica, Glæsibæ.