„Við berum fullt traust til Páls. Hann er góður kandídat í forstjórastólinn og hefur verið að gera góða hluti á geðsviðinu þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri í nokkur ár. Þannig að við berum fullt traust til hans,“ segir Anna Gunnarsdóttir, formaður læknaráðs Landspítalans, í samtali við mbl.is vegna skipunar Páls Matthíassonar sem forstjóra Landspítalans.
Hins vegar sé nú beðið eftir fjárlagafrumvarpinu sem gert verður opinbert á morgun. „Það sem skiptir mestu máli er það hvaða verkfæri hann fær í hendurnar. Það er auðvitað sama hver er í brúnni ef hann fær ekki verkfærin til þess að vinna það starf sem þarf að vinna. Að fara í þá enduruppbyggingu á spítalanum sem þarf að fara í. Ég vil líkja þessu við skurðlækni sem hefur ekki hníf í höndunum.“