Hrun vofir yfir íslenskri kvikmyndamenningu

Kvikmyndagerðarmenn að störfum.
Kvikmyndagerðarmenn að störfum. mbl.is/Golli

Sá niðurskurður sem boðaður er til Kvikmyndasjóðs í fjárlagafrumvarpi ársins 2014 mun kippa fótunum undan innlendri kvikmyndagerð, sem stóð mjög völtum fótum fyrir eftir atlögu sem gerð var að henni þegar sjóðirnir voru skornir niður um 35% árið 2009.

Þetta segir í yfirlýsingu frá Félagi kvikmyndagerðarmanna vegna fjárlagafrumvarpsins sem ríkisstjórnin kynnti í dag.

„Hrein atlaga að greininni“

Félagið segir að sú uppbygging og fjárfesting sem átt hefur sér stað í kvikmyndageiranum frá árinu 2012, og varð að veruleika 2013, verði nú að engu og afleiðingarnar séu grafalvarlegar fyrir þennan viðkvæma iðnað.

„Nú er fjármagnið skorið niður um 42% sem er hrein atlaga að greininni. Áætla má að rúmlega 200 ársstörf tapist í kvikmyndagerð og ljóst er að bæði þekking og faglegt vinnuafl munu hverfa úr landi.“

Félagið bendir á rannsókn Ágústs Einarssonar á Bifröst frá árinu 2011 um hagræn áhrif kvikmyndagerðar, þar sem niðurstaðan hafi verið sú að „hver króna [úr Kvikmyndasjóði] margfaldist við kvikmyndagerðina. Félagið hvetur Alþingi til að „leiðrétta þennan örlagaríka kúrs og forða íslenskri kvikmyndamenningu frá hruni.“

Átti m.a. að fjármagna með veiðigjaldi

Í fjárlagafrumvarpinu er fallið frá áformum um 470 milljóna króna hækkun á framlagi til Kvikmyndasjóðs, sem var eitt af verkefnum í s.k. fjárfestingaáætlun ársins 2013. „Endurskoðun á tekju- og afkomuhorfum ríkissjóðs við undirbúning frumvarpsins hefur leitt í ljós að forsendur þessarar fjármögnunar eru brostnar,“ segir í frumvarpinu.

Fjárfestingaáætlunin 2013 átti að vera fjármögnum m.a. með sérstöku veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins, söluhagnaði og eignasölu. Í frumvarpi nýrrar ríkisstjórnar segir að þessar tekjuáætlanir hafi ekki reynst byggðar á nægilega traustum grunni. 

Íslensk kvikmyndagerð er viðkvæmur iðnaður að sögn Félags kvikmyndagerðarmann.
Íslensk kvikmyndagerð er viðkvæmur iðnaður að sögn Félags kvikmyndagerðarmann. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is