Lækka skatt á einnota bleium

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að með frumvarpinu aukist kaupmáttur heimilanna …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að með frumvarpinu aukist kaupmáttur heimilanna um 0,3%. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkisstjórnin ætlar að lækka skatt á einnota bleium úr 25,5% í 7%. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir þessa breytingu liður í að bæta stöðu barnafjölskyldna, en rannsóknir Seðlabankans bendi til að þeir sem eigi í mestum fjárhagserfiðleikum séu barnafjölskyldur.

Kostnaður ríkissjóðs við að lækka skatt á bleium er áætlaður um 200 milljónir. Bjarni sagði að þessi breyting ætti að lækka verð á bleium um 14-15% og auka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna um nokkur þúsund krónur á mánuði.

Hætt við að lengja fæðingarorlofið

Fyrri ríkisstjórn beitti sér fyrir því í lok síðasta árs að fæðingarorlofið yrði lengt úr 9 mánuðum í 12 mánuði. Þetta átti að koma til framkvæmda á árunum 2014-2016. Bjarni sagði að ákveðið hefði verið að falla frá þessari lengingu. Kostnaður við lengingu orlofsins væri 2,4 milljarðar þegar búið væri að lengja orlofið í 12 mánuði. Hann sagði að ekki hefði verið búið að fjármagna lengingu orlofsins og þetta hefði því að óbreyttu aukið hallann á ríkissjóði.

Fæðingarorlofslögin, sem tóku gildi í byrjun árs, kveða á um hámarksgreiðslu til foreldra hækki úr 300 þúsund á mánuði í 350 þúsund, en þessi breyting kemur ekki að fullu til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Í fjárlagafrumvarpinu er boðað að hámarksupphæð til foreldra hækki úr 350 þúsund í 370 þúsund vegna barna sem fædd eru eftir 1. janúar nk.

Breytingar sem auka kaupmátt um 0,3%

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu lækkar tekjuskattur á miðþrepi úr 25,8% í 25%. Einnig er gert ráð fyrir að frítekjumark fjármagnstekjuskatts vegna vaxtatekna einstaklinga hækki úr 100 þúsund í 125 þúsund. Bjarni sagði að þetta þýddi að heimili með fjármagnstekjur héldu eftir 200 milljónum sem annars hefðu farið í ríkissjóð.

Bjarni sagði að breytingar á tekjuskatti einstaklinga, breytingar á fjármagnstekjuskatti og lækkun virðisaukaskatts á bleium þýddu að kaupmáttur heimilanna myndi aukast um 0,5-0,6%. Á móti kæmi að krónutöluskattar myndu hækka og gjöld hækka í samræmi við verðlag. Heildaráhrifin yrðu því að kaupmáttur heimilanna myndi hækka um 0,3% með fjárlagafrumvarpinu. Hann sagði að þessar breytingar væru fallnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga.

mbl.is