Lítið um að loforðin séu efnd

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ríkisstjórnin var kosin út á stór og mikil loforð en lítið af þeim sjást í frumvarpinu,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. Hún segir að við fyrsta lestur boði fjárlagafrumvarpið ekki eins miklar breytingar eins og margir áttu ef til vill von á.

„Mér finnst frumvarpið sýna að ríkisstjórnin hafi áttað sig á að ekki er hægt að framkvæma allar þær breytingar sem boðaðar höfðu verið í einu, þ.e.a.s. lækka skatta, minnka skuldir og halda uppi velferðarkerfinu á sama tíma,“ segir Elín.

Hún bendir á að aðhalds- og niðurskurðarkröfur virðist eigi aðvera nokkuð almennar og erfitt sé við fyrstu sýn að sjá hvaða áhrif frumvarpið hafi t.d. fyrir velferðarkerfið, og hvort vænta megi fjöldauppsagna starfsfólks í almannaþjónustunni.

Elín Björg bætir jafnframt við að sér finnist vanta nokkuð upp á efnd loforða í fjárlögunum.

„Þar er ekkert um 12-13 milljarða innspýtingu til Landsspítala líkt og lofað var í aðdraganda kosninga, en þess í stað fellt út 600 milljóna tímabundið framlag til tækjakaupa. Það eru  nokkur vonbrigði.“

<span><span>Fram kemur í frumvarpinu að vaxta- og barnabætur verði ekki skertar á komandi ári og þá á að lækka milliskattþrep tekjuskatts einstaklinga um 0,8%.</span></span>

„Það mun gagnast mörgum vel en aftur á móti hækka frítekjumörk ekki og lækkun fyrsta skattþrepsins hefði komið betur við þá sem allra lægstu launin hafa. Ég tel það jákvætt að ekki komi til skerðingar á vaxta- og barnabóta á næsta ári. Hins vegar þýðir það að ekki verði komið á samræmdum húsnæðisbótum sem eykur enn á ósamræmi milli þeirra sem bú í eigin húsnæði og þeirra sem kjósa frekar að leigja,“ segir Elín Björg.

Hún hefur einnig nokkrar áhyggjur að innheimta eigi sérstakt legugjald fyrir þá sem veikjast og þurfa að leggjast inn á spítala og að hækka eigi komugjöld á sjúkrastofnanir.

„Bendi ég í þessu sambandi á skýrslu sem var gerð fyrir Krabbameinsfélagið og sýnir fram hvaða áhrif það getur haft á fjárhag fólks að veikjast alvarlega og lenda inni á sjúkrahúsi. Í mörgum tilfellum skapast mikill fjárhagsvandi hjá þeim sem veikjast og ég vara þess vegna mjög við því að auka þessi gjöld því nægur er kostnaðurinn fyrir.“

Elín Björg segir lykilinn að góðu samfélagi vera jöfnuð fólks og hann náist best með öflugu velferðarkerfi sem rekið sé á samfélagslegum grunni. „Það kerfi verðum við að efla eins og kostur er.“

mbl.is