Íslendingar munu áfram verja sem nemur 0,26% af vergri þjóðarframleiðslu til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á næsta ári, skv. fjárlagafrumvarpinu. Viðmið Sameinuðu þjóðanna er að iðnríki veiti 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu.
Ísland á því enn talsvert langt í land með að mæta þeirri skuldbindingu og eru eftirbátar annarra norrænna þjóða á þessu sviði, en framlög til þróunarsamvinnu voru skorin niður um fjórðung eftir hrun.
Hlutfallið var þó aftur hækkað milli áranna 2012 og 2013, úr 0,21% í 0,26%. Hæst fór það í 0,43% af vergum þjóðartekjum Íslendinga árið 2008.
Samkvæmt áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands er stefnt að því að framlögin verði hækkuð árin 2015 og 2016. Fyrir árið 2019 muni Ísland svo skipa sér í hóp þeirra ríkja sem uppfylla 0,7% viðmið SÞ.
Þróunarsamvinnuáætlunin er lögð fyrir þingið á tveggja ára fresti og var það gert nú síðast í mars á þessu ári. Hún var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema einu, en það var Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sem greiddi atkvæði gegn því að framlagið yrði hækkað 2015 og 2016.
Gaf hún þá skýringu að málið snerist um forgangsröðum og ekki væri rétt að ráðstaf milljörðum króna í erlendum gjaldeyri á sama tíma og Landspítalinn væri í fjársvelti.
Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að heildarfjárveiting til þróunarmála- og alþjóðastofnanna verður aukin um 626,4 milljónir króna á næsta ári, þegar frá eru taldar breytingar vegna launa-, gengis- og verðlagsbreytinga, en þær nema alls 53,7 milljónum kr til lækkunar. Að þeim meðtöldum hækka framlögin um 772,7 milljónir kr milli ára.
Útgjöld í þessum málaflokki aukast m.a. vegna tæplega 750 milljóna kr hækkunar á framlagi í Þróunarsjóð EFTA og 107 milljónum kr í aukin framlög til þróunarsamvinnu. Á móti kemur 174 milljóna kr lækkun á framlagi til alþjóðlegrar friðargæslu.
Framlögin til þróunarsamvinnu nema þá samtals 4.475 milljónum kr. Fjárveiting til Þróunarsamvinnustofnunnar Íslands hækkar um 4,9 milljónir kr á næsta ári og verður 1.777,5 milljónir kr.
Gert er ráð fyrir 2.225,7 milljóna kr framlögum til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi, og jafngildir það 60,3 milljóna kr hækkun að raungildi miðað við gildandi fjárlög.