Ríkissjóður mun leggja Íbúðalánasjóði til 4,9 milljarða á næsta ári samkvæmt fjárlögum. Þar af verða 4,5 milljarðar vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjóðsins og 441 milljónir vegna neikvæðs vaxtamunar á lánum til leiguíbúða.
Þá er gert ráð fyrir því að ríkissjóður gæti þurft að veita sjóðnum 4,5 milljarða, árlega, í framlag til að mæta rekstrarvanda sjóðsins. Annars vegar 3 milljarða framlag til að mæta taprekstri og áhættuvörnum hjá sjóðnum og hins vegar 1,5 milljarði í framlag til að mæta kostnaði vegna fullnustueigna sjóðsins.
Íbúðalánasjóður hefur lengi átt í erfiðleikum og hefur frá stofnun verið rekinn með 64 milljarða tapi. Í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð var jafnvel gengið svo langt að segja að heildartap sjóðsins væri 270 milljarðar. Frá árinu 2010 hefur eiginfjárframlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs numið um 46 milljörðum króna.