Tryggingargjaldið lækkar í 7%

Tryggingagjald verður lækkað um 0,34 prósentustig á næstu þremur árum.
Tryggingagjald verður lækkað um 0,34 prósentustig á næstu þremur árum. mbl.is/Eggert

Tryggingargjald á að lækka um 0,34 prósentustig á næstu þremur árum samkvæmt fjárlögum ríkisstjórnarinnar sem voru kynnt í dag. Mun gjaldið lækka úr 7,34% niður í 7% og mun það hafa bein áhrif til lækkunar á útgjöldum fyrirtækja um 3,8 milljarða þegar breytingarnar eru komnar til framkvæmda að fullu.

Fór úr 5,19% upp í 8,35%

Í kynningunni er sagt að skattabreytingin muni leiða til þess að skattar á öll fyrirtæki hér á landi lækki, nema stærri fjármálafyrirtæki, en hækkun á bankaskatti mun leiða til hærri skattbyrðar þeirra. Þá segir þar að þetta muni skapa svigrúm til fjárfestinga og kjarabóta til lengri tíma litið.

Tryggingagjaldið var árið 2007 5,19%. Í júlí 2009 hækkaði það svo upp í 6,75% og aftur í janúar 2010 þegar það fór upp í 8,35%. Í janúar 2012 var tryggingagjaldið svo lækkað í 7,44% og aftur um 0,1 prósentustig í janúar á þessu ári. 

Svigrúm fyrir meiri lækkun

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við mbl.is að þessi breyting sé afar jákvæð. Hann telur að lækkun tryggingagjaldsins muni vafalítið styðja við atvinnulífið, en þó hafi verið svigrúm fyrir frekari lækkun.

Hann segir að þegar ákveðið var að ráðast í hækkun af síðustu ríkisstjórn hafi það verið með loforði um að farið yrði í lækkun þegar færi gæfist, enda væri þetta sá skattur sem vægi þyngst á fyrirtækin og drægi úr atvinnusköpun. Hann sagði að fljótt á litið teldi hann að möguleiki væri fyrir frekari lækkun, en að horfa þyrfti einnig til betri vinnumarkaðsúrræða fyrir atvinnulausa.

Þorsteinn sagði að enn væri verið að bergjast við atvinnuleysi, en að horfa ætti til þess að lækka tryggingagjaldið niður í um 5%, eins og það var fyrir hrun. 

Tryggingagjald er sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna á tekjuári og eftir atvikum af eigin reiknuðu endurgjaldi. Tryggingagjald er almennt innheimt í staðgreiðslu og skiptist í almennt tryggingagjald og atvinnutryggingagjald.

Tryggingagjald telst til svokallaðra launatengdra gjalda, en það eru þau gjöld sem launagreiðendur, þ.m.t. sjálfstætt starfandi menn, greiða vegna launakostnaðar við atvinnurekstur.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir svigrúm til frekari lækkana.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir svigrúm til frekari lækkana. Styrmir Kári
mbl.is