Boðaðar eru viðamiklar aðhaldsaðgerðir og niðurskurður í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í gær. Alls eiga að sparast með þessum aðgerðum um tólf milljarðar króna, þar af um 1,1 milljarður í heilbrigðismálum og 670 milljónir í menntamálum.
Með því að falla frá nýlegum verkefnum sparast tæpir sex milljarðar og 2,6 milljarðar með sérstökum aðhaldsaðgerðum.
Samkvæmt frumvarpinu er stefnt að hallalausum rekstri á ríkissjóði á næsta ári. Gangi það eftir yrðu það fyrstu hallalausu fjárlögin í sex ár. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 587,1 milljarður en heildartekjur 587,6 milljarðar, sem gerir afgang upp á hálfan milljarð króna.
Vinna á að einföldun ríkiskerfisins og efla stofnanir með sameiningu þeirra. Gert er ráð fyrir að stofnunum muni fækka um minnst fimmtíu og að stofnanir með færri en þrjátíu manns muni heyra til undantekninga. Stefnt er m.a. að fækkun sýslumanns- og lögregluembætta og sameina á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, að því er fram kemur í umfjöllun um frumvarpið í Morgunblaðinu í dag.