Gera áætlun um tækjakaup LSH

Í tengslum við gerð fjárlaga 2014 munu fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra vinna að gerð nýrrar tækjakaupaáætlunar fyrir Landspítala og Sjúkrahúsið á Akureyri til ársins 2017. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á viðhald og endurbætur á núverandi húsa- og tækjakosti Landspítalans.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra.

Áætlunin verður unnin í samráði við starfsfólk Landspítalans og Sjúkrahússins á  Akureyri og kynnt ríkisstjórn og fjárlaganefnd fyrir 2. umræðu fjárlaga.

Á undanförnum árum hafa framlög til tækjakaupa verið töluvert lægri en nauðsynlegt er talið, segir í tilkynningunni. Til marks um það lækkaði föst fjárveiting til tækjakaupa á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri um nær helming að raungildi frá árinu 2006 til 2013.

„Ekki síst í ljósi þessa verður ekki hjá því komist að ráðast í gerð langtímaáætlunar um fjárfestingar í tækjakosti fyrir sjúkrahúsin,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is