Viðbrögð stjórnarandstöðunnar við fjárlögum ársins 2014, sem kynnt voru í gær, eru að mestu leyti neikvæð. Flestir eru á því að bankaskatturinn sé rétt skref en finnst fjárframlögin til heilbrigðis- og menntamála of lág.
„Í eðlilegu árferði þætti þessi niðurskurður til heilbrigðismála ekki endilega mikill, en vegna þess niðurskurðar sem hefur orðið í málaflokknum á undanförnum árum er þetta of mikið,“ segir Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra og fulltrúi Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd.
„Mér finnst töluvert ójafnvægi í þessu frumvarpi,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. „Það er í raun boðuð alger stöðnun og í raun niðurníðsla á Landspítalanum þar sem er mikil þörf á nýju húsnæði eða viðhaldi á því gamla.“
„Það sem stendur upp úr finnst mér vera forgangsröðunin sem gerð var á sumarþingi þar sem verið er að skera niður í tekjustofnunum,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.