Kennarasamband Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá útreið sem framhaldsskólar landsins fá í frumvarpi til fjárlaga 2014. Gert er ráð fyrir sparnaði upp á rúman 1,5 milljarð í málaflokknum.
Í fréttatilkynningu frá sambandinu segir að þó hluti þeirrar upphæðar eigi að spara í liðnum „stofnkostnaður“ sé engu að síður gerð almenn aðhaldskrafa í kerfinu. Því sé ljóst að rekstur skólanna, sem fyrir var afar erfiður, mun þyngjast enn frekar. „Fjárframlög eru í dag, og verða áfram ekki í neinu samræmi við fjölda nemenda eða þau verkefni sem skólunum er gert að sinna. Engin tilraun er gerð til að leiðrétta þessa skekkju,“ segir í tilkynningunni.
Minnt er á að þegar rekstrarfé hvers skóla er reiknað út gefur ráðuneytið sér ákveðnar forsendur, meðal annars um laun framhaldsskólakennara, en um 80% af rekstrarkostnaði framhaldsskólanna felst í launakostnaði. „Viðmið ráðuneytisins hefur árum saman verið allt of lágt og var munurinn á því og meðallaunum framhaldsskólakennara orðinn 24% eða 85 þúsund krónur á mánuði á hvern einasta framhaldsskólakennara árið 2012. Ekki er gert ráð fyrir því að leiðrétta þessa skekkju í Fjárlagafrumvarpinu. Þess í stað er stjórnendum skólana falið að brúa bilið og ábyrgð á rekstri skólanna þannig færð frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum til embættismanna.
Fjölmargir nemendur stunda nú nám í framhaldsskólunum í gegnum verkefnið „Nám er vinnandi vegur“. Skerðing sem nemur tæpum 400 milljónum króna á fjárveitingum til þeirra skóla sem sinna þessum nemendum er því reiðarslag.
Fjárlagafrumvarpið sýnir þann vilja nýrrar ríkisstjórnar að halda áfram að þrengja að framhaldsskólunum, sem fyrir voru fjársveltir. Ástandið bitnar nú þegar á nemendum en miðað við þetta fjárlagafrumvarp má vænta verra ástands í skólunum – enn stærri námshópa, enn minna og einsleitara námsframboðs og enn minni stoðþjónustu. KÍ lýsir áhyggjum af áhrifum þess á nám og líðan nemenda og að áframhaldandi niðurskurður muni einnig þýða aukið álag á kennara, stjórnendur og aðra starfsmenn,“ segir í tilkynningunni.