Stofnanir verði með a.m.k. 30 starfsmenn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í gær.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkisstjórnin ætlar að vinna að aukinni skilvirkni í stjórnsýslunni með margvíslegum hætti. Stefnt er að því að fækka stofnununum þannig að stofnanir með færri en 30 starfsmenn heyri til undantekninga.

Þetta kemur fram í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu þar sem fjallað er um stefnumörkun til lengri tíma. Í greinargerðinni segir að þó að grunnstoðir í þjónustu ríkisins séu traustar séu samt sem áður veikleikar í ríkisrekstrinum. Lækkun fjárveitinga undanfarin ár hafi verið mikil áskorun í rekstri ríkisins og reynt bæði á starfsfólk og notendur opinberrar þjónustu. Þrátt fyrir að það hafi að mestu tekist að verja grunn-þjónustuna sé ekki hægt að ganga að því sem vísu að náðst hafi varanleg hagræðing.

Í greinargerðinni segir að hagræðingarhópur þingmanna beinist einkum að því að taka á margháttuðum kerfisvanda eða -óhagræði og stuðla að öflugri og nútímalegri ríkisrekstri. Undirbúningur að viðamiklum kerfisbreytingum sé þegar hafinn í mörgum ráðuneytum og munu þær beinast að helstu þjónustu- og stjórnsýslukerfum ríkisins.

„Ríkisstjórnin er staðráðin í að bregðast við breyttu umhverfi í ríkisrekstri og nýta öll tækifæri til að bæta þjónustu, auka hagkvæmni og árangur. Áhersla verður lögð á að draga úr kerfislægum ágöllum og byggja upp einfaldari, markvissari og árangursríkari opinbera þjónustu eins og lögð er áhersla á í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar,“ segir í greinargerðinni.

Sameina stofnanir og fækka háskólum

Fyrirhugað er að gera breytingar á heilbrigðisþjónustu með sameiningar stofnana, útboði sérfræðiþjónustu, þjónustustýringu og blandaðri fjármögnun með framleiðnihvötum.

Þá segir að nám í framhaldsskólum verði stytt og aðrar breytingar gerðar, s.s með sameiningu skóla, sveigjanlegra rekstrarformi, markvissari fjármögnun og árangursmati.

Unnið verði að fækkun háskóla og samhliða verði rekstrarformi þeirra breytt, fjármögnun samræmd og gæðamat eflt.

Unnið verði að eflingu og einföldun á stoðkerfi atvinnulífsins, t.d. með sameiningu stofnana og samþættingu atvinnuþróunarsjóða í eitt heildstætt fjármögnunarkerfi nýsköpunar.

mbl.is