Varar við legugjaldi á sjúklinga

Árni Stefán Jónsson
Árni Stefán Jónsson

„Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ber kaldar kveðjur til þjóðarinnar og starfsmanna ríkisins almennt,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Miklar væntingar stóðu til þess að ríkisstjórnin stæði við loforð sín varðandi það að veita nauðsynlegt fjármagn til Landspítalans. Úr þessu frumvarpi má bara lesa stöðnun, sem í reynd er niðurskurður. Hækkun gjalda í heilbrigðis- og velferðarþjónustu er í hrópandi mótsögn við boðun velferðarráðherra um fjölskylduvænna samfélag.

Ég vil vara stjórnvöld við því að sérstakt gjald verði tekið af sjúklingum sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Þar er um að ræða algjöra kerfisbreytingu sem ógnar íslensku velferðarkerfi eins og við þekkjum það. Reyndin er sú að slík gjöld hafa tilhneigingu til að aukast. Þannig hefur kostnaður við göngudeildarsjúklinga aukist og það sama munum við sjá hjá legusjúklingum – smátt og smátt verður það aðeins á færi þeirra efnameiri að nýta sér heilbrigðisþjónustuna. Þetta eru sannarlega ekki þær áherslur í heilbrigðiskerfinu sem við viljum sjá.“

mbl.is