Vaxta- og barnabætur munu ekki lækka á næsta ári. Samtals fara 19,6 milljarðar í þessar bætur á árinu 2014.
Í lok árs 2012 var samþykkt að hækka barnabætur um 3 milljarða. Barnabætur í ár verða 10,5 milljarðar. Ríkisstjórnin leggur til í fjárlagafrumvarpinu að þessari viðbót frá því í fyrra haldist á næsta ári. Bæturnar verða þó ekki uppfærðar miðað við verðlag heldur verða óbreyttar í krónutölu.
Fyrri ríkisstjórn setti einnig aukið fé í vaxtabætur. Bæturnar nema um 11 milljörðum króna í ár
Á árunum 2011 og 2012 voru auk vaxtabótanna greiddar út sérstakar vaxtaniðurgreiðslur sem liður í að koma til móts skuldug heimili. Þessar niðurgreiðslur réðust einungis af skuldastöðu fjölskyldna en ekki tekjum eins og gildir um vaxtabæturnar. Á árinu 2012 námu sérstakar vaxtaniðurgreiðslur tæpum 6 milljörðum króna.
Samkvæmt álagningartölum opinberra gjalda frá embætti ríkisskattstjóra eru ákvarðaðar vaxtabætur 8,7 milljarðar á árinu 2013 sem er talsvert lægri fjárhæð en reiknað hafði verið með í fjárlögum 2013. Þar kemur tvennt til. Fyrst má nefna að vaxtabætur voru lægri en fjárheimildir fyrir yfirstandandi ár miðað við álagningartölur opinberra gjalda sem nú liggja fyrir. Áætlun um útgjöld vegna vaxtabóta hefur því verið færð niður fyrir árið 2013 og er gert ráð fyrir að sama eigi við um næsta ár. Í annan stað má nefna að skuldastaða heimila batnaði nokkuð á árinu 2012 frá árinu á undan. Sú jákvæða þróun hækkar nettóeign heimila og leiðir þar með til minni útgjalda ríkissjóðs í formi vaxtabóta. Að þessu samanlögðu og að teknu tilliti til hefðbundinna hækkunar vaxtabóta eftir kærur og endurákvörðun er reiknað með endanleg útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslu vaxtabóta verði 9,1 milljarður á árinu 2013.
Í fjárlagafrumvarpinu er gengið út frá því að vaxtabótakerfið verði óbreytt á næsta ári, en bætt verður við 500 milljónum vegna vegna lánsveðsvaxtabóta. Heildarútgjöld vegna vaxtabóta verða því samtals 9,4 milljarðar á árinu 2014.