Ekki stendur til að leggja af heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni heldur að sameina yfirstjórn þeirra innan heilbrigðisumdæma, að sögn Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra.
Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að spara eigi 160 milljónir króna með því að sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum.
„Við horfum fyrst og fremst á stjórnunarlagið. Í stað níu ríkisforstjóra verða þrír. Við erum ekki að fara að skerða þjónustu við íbúa þessara landsvæða. Það er ekki inni í myndinni. Við munum þvert á móti leitast við að tryggja þeim öruggari og betri þjónustu,“ segir Kristján í fréttaskýringu um sameiningu heilbrigðisstofnana í Morgunblaðinu í dag.