Forsendur fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014 gera ráð fyrir tæplega 3% kaupmáttaraukningu á næsta ári sem rímar vel við áherslur í kröfugerð VR. Fyrsti fundur fulltrúa félagsins og Samtaka atvinnulífsins um nýjan kjarasamning verður í næstu viku.
Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir í fréttatilkynningu að fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar veiti samningsaðilum ákveðin fyrirheit þegar kemur að launalið kjarasamninga, fyrirheit sem samrýmist áherslum í kröfugerð félagsins. „Forsendur fjárlaga eru m.a. kaupmáttaraukning uppá 2,6% á næsta ári sem við fögnum að sjálfsögðu og er í samræmi við þær áherslur sem við höfum kynnt. Félagsmenn VR vilja tryggja aukinn kaupmátt og stöðugleika í næstu samningum, það sjáum við bæði í niðurstöðum kannanna meðal félagsmanna síðustu vikurnar og á þeim fundum sem við höfum haldið með okkar fólki. En ef halda á verðbólgunni við 3% markið verða allir að leggja sitt af mörkum, ekki bara launafólk. Við lítum svo á að með þessu séu stjórnvöld að krefjast þess að allir taki þátt í að skapa stöðugleika í verðlagi.“
Frumvarpið gerir ráð fyrir nokkrum breytingum í skattamálum sem hugnast VR misvel. „Við fögnum því að bankaskatturinn hækki og nái til fjármálafyrirtækja í slitameðferð, það er sanngirnismál,“ segir Ólafía. „Hins vegar urðum við fyrir vonbrigðum með breytingar á tekjuskattshliðinni, þær koma sér betur fyrir þá sem hæstu launin hafa, þvert á væntingar okkar. Þá stóðu vonir okkar til þess breytingar á tryggingagjaldinu myndu veita svigrúm til launahækkana, en svo er ekki.“
Fyrirhugað er að fulltrúar VR og Samtaka atvinnulífsins hittist á sínum fyrsta formlega samningafundi á þriðjudag í næstu viku og segir Ólafía að lagt verði af stað í viðræðurnar með kröfugerð félagsins sem samþykkt var á fundi trúnaðarráðs í vikunni. Sjá hér kröfugerðina í heild sinni.