Minnast ekki á refsiaðgerðir

mbl.is

„Þessi ráðlegg­ing um auk­inn kvóta fyr­ir árið 2014 fel­ur í sér gríðarlega góðar frétt­ir fyr­ir skosk­an sjáv­ar­út­veg og um leið mak­ríl­stofn­inn sjálf­an þrátt fyr­ir óá­byrg­ar veiðar annarra. Fyr­ir utan það að skapa auk­in tæki­færi til veiða ger­ir það okk­ur mögu­legt að stuðla að enn betri stjórn á veiðum úr stofn­in­um til framtíðar sem hindrað hef­ur verið á und­an­förn­um árum vegna deilna.“

Þetta seg­ir Rich­ard Lochhead, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Skot­lands, í dag á vefsíðu skosku heima­stjórn­ar­inn­ar í kjöl­far yf­ir­lýs­ing­ar Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðsins (ICES) þess efn­is að aðferðafræði þess við að meta stærð mak­ríl­stofns­ins í Norðaust­ur-Atlants­hafi til þessa hafi ekki gefið rétta mynd af stofn­in­um og van­metið veru­lega stærð hans. Allt bendi til þess að mak­ríl­stofn­inn hafi stækkað und­an­far­in ár þrátt fyr­ir veiðar úr hon­um um­fram ráðgjöf ráðsins. Ráðlegg­ing ráðsins vegna mak­ríl­veiða á næsta ári er tæp­lega 890 þúsund tonn sam­an­borið við 542 þúsund tonn á þessu ári.

„Þessi vís­inda­lega ráðgjöf skap­ar sömu­leiðis nýtt tæki­færi til þess að reyna að leysa yf­ir­stand­andi deilu við Ísland og Fær­eyj­ar. Þetta get­ur skapað nýj­an hvata í viðræðunum og við mun­um halda áfram að gera allt til þess að ná sam­komu­lagi við Íslend­inga og Fær­ey­inga vegna deili­stofna. Við von­um að þeir leggi fram skyn­sam­leg og sann­gjarn­ar til­lög­ur. Við þurf­um all­ir að vera sveigj­an­leg­ir í fram­göngu okk­ar til þess að grípa þetta tæki­færi. Við erum reiðubún­ir að semja en ekki sama hvað það kost­ar og mögu­legt sam­komu­lag verður að tryggja hags­muni Skot­lands,“ seg­ir hann enn­frem­ur en fundað verður síðar í þess­um mánuði í mak­ríl­deil­unni.

Evr­ópu­sam­bandið tryggi hags­muni Bret­lands

„Vís­indaráðgjöf­in staðfest­ir það sem skosk­ir sjó­menn hafa ít­rekað sagt að mak­ríl­stofn­inn sé við góða heilsu og að neyt­end­ur geti haldið áfram að borða skosk­an mak­ríl í trausti þess að nóg sé af hon­um í sjón­um og hann sé veidd­ur á sjálf­bær­an hátt,“ seg­ir Ian Gatt, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka skoskra upp­sjáv­ar­sjó­manna, á vefsíðu sam­tak­anna í dag af sama til­efni. Hann seg­ir að skosk­ir sjó­menn voni að Íslend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar komi á fund­inn með sveigj­an­legt póli­tískt umboð sem geri samn­inga­mönn­um þeirra kleift að semja um mála­miðlun sem taki mið af oft á tíðum ófyr­ir­sjá­an­legri hegðun fiski­stofna.

Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins og sjáv­ar­út­vegs­ráðherr­ar bæði Bret­lands og Skot­lands verði að sjá til þess að kjarni framtíðarsam­komu­lags um mak­ríl­inn taki mið af hags­mun­um breska fiski­skipa­flot­ans. Hins veg­ar er hvergi minnst á mögu­leg­ar refsiaðgerðir Evr­ópu­sam­bands­ins sem hótað hef­ur verið og bæði Lochhead og Gatt hafa lagt mikla áherslu á und­an­far­in miss­eri að gripið yrði til gegn Íslandi og Nor­egi. Síðast fyrr á þessu ári. Sömu­leiðis eru Íslend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar ekki leng­ur sakaðir um ósjálf­bær­ar veiðar sem er for­senda mögu­legra aðgerða af hálfu sam­bands­ins.

Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands.
Rich­ard Lochhead, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Skot­lands. Ljós­mynd/​The Scott­ish Go­vern­ment
mbl.is