„Þessi ráðlegging um aukinn kvóta fyrir árið 2014 felur í sér gríðarlega góðar fréttir fyrir skoskan sjávarútveg og um leið makrílstofninn sjálfan þrátt fyrir óábyrgar veiðar annarra. Fyrir utan það að skapa aukin tækifæri til veiða gerir það okkur mögulegt að stuðla að enn betri stjórn á veiðum úr stofninum til framtíðar sem hindrað hefur verið á undanförnum árum vegna deilna.“
Þetta segir Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands, í dag á vefsíðu skosku heimastjórnarinnar í kjölfar yfirlýsingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) þess efnis að aðferðafræði þess við að meta stærð makrílstofnsins í Norðaustur-Atlantshafi til þessa hafi ekki gefið rétta mynd af stofninum og vanmetið verulega stærð hans. Allt bendi til þess að makrílstofninn hafi stækkað undanfarin ár þrátt fyrir veiðar úr honum umfram ráðgjöf ráðsins. Ráðlegging ráðsins vegna makrílveiða á næsta ári er tæplega 890 þúsund tonn samanborið við 542 þúsund tonn á þessu ári.
„Þessi vísindalega ráðgjöf skapar sömuleiðis nýtt tækifæri til þess að reyna að leysa yfirstandandi deilu við Ísland og Færeyjar. Þetta getur skapað nýjan hvata í viðræðunum og við munum halda áfram að gera allt til þess að ná samkomulagi við Íslendinga og Færeyinga vegna deilistofna. Við vonum að þeir leggi fram skynsamleg og sanngjarnar tillögur. Við þurfum allir að vera sveigjanlegir í framgöngu okkar til þess að grípa þetta tækifæri. Við erum reiðubúnir að semja en ekki sama hvað það kostar og mögulegt samkomulag verður að tryggja hagsmuni Skotlands,“ segir hann ennfremur en fundað verður síðar í þessum mánuði í makríldeilunni.
Evrópusambandið tryggi hagsmuni Bretlands
„Vísindaráðgjöfin staðfestir það sem skoskir sjómenn hafa ítrekað sagt að makrílstofninn sé við góða heilsu og að neytendur geti haldið áfram að borða skoskan makríl í trausti þess að nóg sé af honum í sjónum og hann sé veiddur á sjálfbæran hátt,“ segir Ian Gatt, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, á vefsíðu samtakanna í dag af sama tilefni. Hann segir að skoskir sjómenn voni að Íslendingar og Færeyingar komi á fundinn með sveigjanlegt pólitískt umboð sem geri samningamönnum þeirra kleift að semja um málamiðlun sem taki mið af oft á tíðum ófyrirsjáanlegri hegðun fiskistofna.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og sjávarútvegsráðherrar bæði Bretlands og Skotlands verði að sjá til þess að kjarni framtíðarsamkomulags um makrílinn taki mið af hagsmunum breska fiskiskipaflotans. Hins vegar er hvergi minnst á mögulegar refsiaðgerðir Evrópusambandsins sem hótað hefur verið og bæði Lochhead og Gatt hafa lagt mikla áherslu á undanfarin misseri að gripið yrði til gegn Íslandi og Noregi. Síðast fyrr á þessu ári. Sömuleiðis eru Íslendingar og Færeyingar ekki lengur sakaðir um ósjálfbærar veiðar sem er forsenda mögulegra aðgerða af hálfu sambandsins.