„Við höfum alltaf lagt áherslu á að það yrði að byggja þetta á vísindum og efast um þessa aðferðafræði hjá ICES. Þess í stað höfum við horft til togararallsins, sem Evrópusambandið hefur því miður ekki viljað taka þátt í, og ævinlega haldið því fram að við værum að standa að málum með ábyrgum hætti og þetta einfaldlega staðfestir það.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is en Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) hefur sent frá sér yfirlýsingu um að aðferðafræði þess við að meta stærð makrílstofnsins í Norðaustur-Atlantshafi til þessa hafi ekki gefið rétta mynd af stofninum og vanmetið verulega stærð hans. Ráðið segir í yfirlýsingu sinni að allt bendi til þess að makrílstofninn hafi stækkað undanfarin ár þrátt fyrir veiðar úr honum umfram ráðgjöf ráðsins.
Markmið ICES er að taka næsta ár í að þróa nýjar aðferðir við að meta stærð stofnsins og á meðan leggur það til að ekki verði veitt meira úr honum en sem nemur meðaltali síðustu þriggja ára. Það þýðir veiðar upp á samtals tæplega 890 þúsund tonn en ráðgjöf ráðsins fyrir þetta ár var til samaburðar var ráðgjöf þess fyrir þetta ár 542 þúsund tonn.
Kollvarpar ásökunum í garð Íslands
„Þetta náttúrulega styrkir okkar stöðu. Öll þau rök sem við höfum talað fyrir eru orðin sterkari. Þetta kollvarpar undirstöðu þeirrar umræðu að við séum að stunda ósjálfbærar veiðar á makrílnum sem farið hefur fram í Skotlandi, Írlandi og víðar sem og hótunum frá Evrópusambandsins um viðskiptaþvinganir á grundvelli meintrar ofveiði. Því er í raun öllu að okkar mati sópað í burtu og það er mjög jákvætt,“ segir Sigurður Ingi.
Ennfremur skapi þetta aukin tækifæri til þess að ná samkomulagi í makríldeilunni. „Þannig að þetta er allt mjög jákvætt. Það staðfestir okkar málflutning til þessa og vísindalega vinnu okkar og eykur möguleika á samningum. En ógnin í þessu er hins vegar að ef ekki nást samningar og menn fara að veiða mun meira þá gætum við farið að nálgast ofveiði á næstu árum auk hugsanlegs verðfalls á mörkuðum vegna of mikils framboðs.“