Alþjóðahafrannsóknaráðið mælir með stórauknum makrílkvóta á Norðaustur-Atlantshafi á næsta ári. Þannig hefur heildarráðgjöfin hækkað um 348 þúsund tonn frá síðasta ári og verður 890 þúsund tonn á næsta ári.
Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samninganefndar Íslands í makríldeilunni, segir aukninguna auka líkur á lausn deilunnar fyrir áramót, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Það er óhætt að segja að þessi stóraukna ráðgjöf, sem byggist á því að makrílstofninn er í miklum vexti og reynist mun sterkari en talið var, skapi okkur betra tækifæri en við höfum haft til að ná samkomulagi.“