Stjórnvöld stefna að því að leggja fram tillögu um aukið fjármagn til Matvælastofnunar (MAST) fyrir aðra umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs. Upphæðin nemur 105 milljónum kr. Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson, sem er starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi í dag.
Þetta var svar við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna, en fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarpið var fram haldið nú í morgun.
Steingrímur spurði ráðherra byggðamála út í stöðu MAST, en sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra fer með byggðamál.
„Hvar sér stað fjárveitingar til þess að hægt sé að standa sómasamlega að framkvæmd nýrrar löggjafar um dýravelferð. Níu milljónir króna frá umhverfisráðuneytinu duga skammt í þeim efnum. Það var metið svo að kostnaður við framkvæmd löggjafarinnar færi á annað hundrað milljónir króna, og kostnaði verður létt af sveitarfélögunum um áramót sem nemur 40-50 milljónum. En ég sé ekki fjárveitinguna til Matvælastofnunar til að standa sómasamlega að þessari framkvæmd,“ sagði Steingrímur.
Gunnar Bragi sagði í svari sínu, að gert væri ráð fyrir „að það komi fram tillaga fyrir aðra umræðu um aukið fjármagn til Matvælastofnunar upp á 105 milljónir kr.“
Steingrímur fagnaði því að Matvælastofnun eigi að fá úrlausn við aðra umræðu fjárlaga. „Þar fer þá einn fimmti af afganginum,“ sagði Steingrímur og vísaði með orðum sínum til þess að ríkisstjórnin hyggst skila 500 milljón kr. afgangi á fjárlögum næsta árs.