Félag fornleifafræðinga lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu Fornminjasjóðs. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi verða fjárframlög til sjóðsins aðeins 31,6 milljónir króna en voru 42,2 milljónir á síðasta ári. Um er að ræða 25% niðurskurð á framlögum á milli ára en alls hefur fé til fornleifarannsókna verið skorið niður um 71% frá árinu 2007.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Þar segir að félagið sé „afar uggandi“ yfir þróun mála. Fornminjasjóður sé eini sjóðurinn sem er eyrnamerktur fornleifarannsóknum en hlutverk hans var aukið til muna á síðasta ári og er nú hluta hans t.d. veitt til báta- og skipaviðgerða.
„Það er hrópandi mótsögn fólgin í því að fjármagn til sjóðsins skuli minnka á sama tíma og hlutverkið er aukið og fyrirsjáanlegt að óbreytt ástand muni ganga mjög nærri öflugu fræðastarfi í fornleifafræði á Íslandi,“ segir m.a. í tilkynningunni.
Félagið segir að fornleifarannsóknir undanfarinn áratug hafi skilað miklum árangri og er afrakstur þeirra meðal annars blómleg útgáfa bóka og greina, málþing og sýningar sem jafnan eru vel sóttar af almenningi auk nýrra ferðamannastaða sem hafa verið byggðir upp í kjölfar rannsókna.
„Allt þetta má þakka uppgangi í greininni á árunum eftir 2000, sem átti rætur í úthlutunum Kristnihátíðarsjóðs og upphafi kennslu í fornleifafræði við Háskóla Íslands.“