Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea-Medica í Glæsibæ svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð um magavöðva sem skemmdust á meðgöngu.
Sæl,
Ég er 47 ára þriggja barna móðir. Eftir að hafa gengið með börnin þrjú er maginn á mér lafandi eins og tómt púðaver og eins og hlaup viðkomu. Er eitthvað ónýtt þarna sem hægt er að laga. Það er eins ég geti ekki styrkst þó að ég reyni magaæfingar. Einhver sagði mér að magavöðvar gætu skemmst við meðgöngu. Einnig eru brjóstin orðin lin og það er eins og húðin vilji ekki skreppa saman sem lýsir sér þannig að baugurinn í kring um geirvörtuna er mjög stór þrátt fyrir að brjóstin séu orðin lítil og slöpp - hvað er til ráða?
Sæl og takk fyrir spurningarnar.
Það hljómar eins og sk. svuntuaðgerð sé það sem þú þarfnast til þess að laga magann. Þá er umframhúðin neðan nafla fjarlægð, skorið er umhverfis naflann, strekkt á húðinni sem er ofan við naflann. Eftir situr ör ofan við lífbeinið og annað umhverfis naflann. Ef gliðnun er á vöðvunum í miðlínu er gert við þá í sömu aðgerð.
Brjóstin á þér þarf að skoða og meta af lýtalækni. Kannski er nóg að fá fyllingu í brjóstin með púðum en hugsanlega þarf að lyfta þeim og setja púða um leið. Ef þér finnst vörtubaugurinn of stór þá þarf að skera umhverfis hann, annars er best að panta tíma hjá lýtalækni og ræða málin. Gangi þér vel.
Kveðja, Þórdís Kjartansdóttir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.