Ljóst þykir að tvær læknisfræðilegar myndgreiningastofur utan sjúkrahúsa klári þann kvóta sem þær hafa hjá Sjúkratryggingum Íslands áður en árið er liðið.
Áætlað er að heildarkostnaður umsaminnar þjónustu þessara fyrirtækja geti orðið 1.100 milljónir króna á árinu, þar af er hlutur Sjúkratrygginga um 770 milljónir. Áætlað er að samtals 45 þúsund sjúkratryggðir einstaklingar fái þjónustu hjá þessum félögum í samtals 55 þúsund komum, samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum.
Hjá Röntgen Domus fengust þær upplýsingar að þegar 75% voru liðin af árinu hafi verið búið að nota 79% kvótans. Því þykir ljóst að kvótinn klárist áður en árið er liðið, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.