Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér spyr lesandi hana út í valbrá.
Kæra Þórdís.
Ég er með valbrá í andliti sem mig langar að láta fjarlægja. Hvernig er valbrá fjarlægð? Hef prófað að fara í laser meðferð hjá húðsjúkdómafræðingi sem skilaði nánast engum árangri.
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Laser hefur verið sú meðferð sem helst hefur verið mælt með. Ef valbráin nær yfir stórt svæði og er dökk þá máttu búast við að þú þurfir að fara endurtekið í laser meðferð. Erfið tilfelli eru nú oft send erlendis þar sem ekki er lengur möguleiki á Íslandi að svæfa sjúklinga fyrir laser meðferðar. Með svæfingu er hægt að fara dýpra ofan í húðina og þannig stytta meðferðina.
Ef allt hefur verið reynt í laser meðferðum þá mætti skoða með lýtalækni hvort skurðaðgerð gæti komið til greina í þínu tilfelli. Ég ráðlegg þér að hafa samband aftur við þína lækna og skoða möguleikana. Á meðan þú bíður eftir varanlegri meðferð þá er um að gera að fá hjálp með að farða yfir valbránna, grænan lit yfir rauða síðan húðlit yfir það, en þetta veistu örugglega nú þegar. Gangi þér vel.
Kveðja Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir Dea Medica í Glæsibæ.