Mikill þrýstingur er á sjávarútvegsráðherra Írlands, Simon Coveney, að leggjast gegn tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að Ísland fái 11,9% hlutdeild í makrílstofninum í Norðaustur-Atlantshafi og Færeyingar 12%.
Þetta kemur fram á fréttavef írska ríkisútvarpsins RTÉ í dag en sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins funda í dag í Lúxemburg um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál þar sem makríldeilan verður meðal annars rædd. Búist er við því að Coveney leggist harðlega gegn tillögu framkvæmdastjórnarinnar og sama eigi að minnsta kosti við um sex önnur ríki sambandsins að því er segir í fréttinni. Óvíst er þó hvort nægjanlega mörg ríki leggist gegn málinu til þess að stöðva það. Þess má geta að Íslendingar hafa til þessa farið fram á um 16-17% hlutdeild í makrílkvótanum.
Framkvæmdastjórnin „óþreyjufull“ að ná samningum
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ekki formlega upplýst um efni tillögu hennar í þessum efnum en erlendir fjölmiðlar hafa greint frá áðurnefndum hlutdeildartölum. Írski Evrópuþingmaðurinn Pat "the Cope" Gallagher segir á vef stjórnmálaflokks síns Fianna Fáil að honum skiljist að framkvæmdastjórnin vilji „óþreyjufull“ ná samningum í makríldeilunni sama hvað það kosti og hvaða áhrif það kunni að hafa fyrir uppsjávarfiskveiðiflota Írlands.
„Það er alþekkt innan Evrópusambandsins og hefur einnig komið fram í norskum fjölmiðlum að framkvæmdastjórnin hafi boðið Íslandi 11,9% og Færeyjum 12% af makrílkvótanum til framtíðar. Ég veit ennfremur til þess að framkvæmdastjórnin sé að ræða við einstök ríki og gera hliðarsamninga um aðra fiskistofna til þess að fá ráðherraráðið til þess að samþykkja tillögu hennar.“