Fulltrúar sjómanna innan Evrópusambandsins funda með Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra sambandsins, í dag um makríldeiluna en viðræðufundur hefst í London á morgun þar sem freista á þess að finna lausn á deilunni.
Haft er eftir Ian Gatt, framkvæmdastjóra Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, á fréttavefnum Fishupdate.com að ætlunin sé leggja áherslu á það við Damanaki að í kjölfar nýjustu ráðlegginga Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) þar sem fram komi að makrílstofninn sé við góða heilsu megi Evrópusambandið ekki flýta sér um of að ná samningum um lausn makríldeilunnar. Náist samningar megi þeir ekki stofna hagsmunum sjómanna innan sambandsins sem hafi til þessa stundað sjálfbærar makrílveiðar.
„Við ætlum að minna sjávarútvegsstjórann á að framgangan í viðræðunum þurfi að vera í samstarfi við félaga okkar í Noregi og að ekki verði fallist á það undir neinum kringumstæðum að Íslendingar fái að veiða makríl út af strönd Skotlands. Við ætlum einnig að minna hana á mikilvægi makríls fyrir Bretland og önnur svæði innan Evrópusambandsins sem skapar fjölmörg störf í vinnslu og tengdri starfsemi í landi. Það væri hörmulegt ef einhver af þessum hefðbundnu störfum glötuðust til þess að verðlauna aðra fyrir óábyrga hegðun þeirra.“