Sjúklingar verulega áhyggjufullir

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Krabbameinssjúklingar og aðstandendur þeirra hafa miklar áhyggjur af ástandinu á Landspítalanum. Sífellt fleiri nýta sér þjónustu Ljóssins, endurhæfingarstöðvar, að sögn Ernu Magnúsdóttur, forstöðukonu. Krabbameinsfélag Íslands fylgist grannt með stöðu mála á krabbameinsdeild spítalans.

Í gær birtist bréf þrjátíu lækna úr prófessoraráði Landspítala í Fréttablaðinu, en þar kom meðal annars fram að ástandið á lyflækningadeild krabbameina sé að þeirra mati mjög alvarlegt. Þar sinni fjórir sérfræðingar störfum sem átta sinntu áður. Þá sögðu þeir einnig að bið eftir fyrsta viðtali við krabbameinslækni, eftir að sjúklingur greinist með krabbamein, geti numið nokkrum vikum.

Verður læknirinn til staðar þegar ég mæti næst?

Að sögn Ernu Magnúsdóttur, forstöðukonu Ljóssins, hafa aðstandendur Ljóssins endurhæfingarstöðvar, miklar áhyggjur af ástandinu á Landspítalanum. Hér er bæði um að ræða sjúklinga og aðstandendur. „Þau dásama starfsfólkið fyrir elju og dugnað en hafa á sama tíma áhyggjur af því hvort læknirinn verði til staðar þegar þau mæta næst. Þau hafa áhyggjur af bilum tækjum, hvort þau skili réttum niðurstöðum,“ segir Erna.

Hún segist finna fyrir mun meiri áhyggjum hjá greindum en áður. „Öll umræðan sem hefur átt sér stað undanfarið gerir fólk óöruggt og kvíðið,“ segir Erna. „Umræðan er þó nauðsynleg, stjórnvöld verða að átta sig á ástandinu.“ Hún segir að aðstandendur Ljóssins almennt áhyggjufulla yfir ástandinu, lækkun lækna og álaginu á spítalanum.

„Við finnum líka ofboðslega sprengingu í fjölda þeirra sem leita til okkar,“ segir Erna. Hún segir forsvarsmenn Ljóssins hafa áhyggjur af þróuninni. Sjúklingarnir og fjölskyldan þurfi aðhald og til að mynda hafi komið fram að erfitt sé að halda fjölskyldufundi á Landspítalanum vegna manneklu.

Eiga að geta treyst á að biðin sé ekki löng

Að sögn Ragnheiðar Haraldsdóttur, forstjóra Krabbameinsfélags Íslands, fylgist félagið grannt með stöðu mála á krabbameinsdeild Landspítalans. Ályktað var um málið á aðalfundi félagsins í vor í framhaldinu og ræddi Ragnheiður ásamt formanni og varaformanni félagsins við heilbrigðisráðherra um ástandið sem væri að skapast á spítalanum. „Við höfum fylgt þessu eftir síðan þá,“ segir Ragnheiður.

Aðspurð segir Ragnheiður að starfsmenn Krabbameinsfélagsins verði varir við að sjúklingar hafi vaxandi áhyggjur af þróuninni á spítalanum. Hún segir að bent hafi verið á mikilvæga hluti í umræðunni um spítalann undanfarið og verði stjórnvöld að bregðast við þeim ábendingum.

„Það þurfa að verða verulegar breytingar á fjárframlagi svo þessar aðstæður skapist ekki,“ segir Ragnheiður. „Sjúklingar eiga ekki að þurfa að bera áhyggjurnar ofan á sjúkdóm sinn. Þeir eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af gæðum þjónustu og kostnaði. Við erum í samfélagi þar sem sjúklingar eiga að geta treyst á að biðin sé ekki löng.“

Ragnheiður segir misjafnt hvort sjúklingar hafi fengið greiningu þegar þeir koma í fyrsta viðtal við krabbameinslækni. Sumir hafi fengið greiningu en aðrir komi í fyrsta viðtal vegna sterkra vísbendinga um að um krabbamein sé að ræða. „Þú vilt ekki þurfa að bíða í óvissu,“ segir Ragnheiður.

Frétt mbl.is: Ástandið ekki alvarlegra í 4 áratugi

Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.
Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Ómar Óskarsson
mbl.is