Margir vegfarendur hafa eflaust rekið upp stór augu þegar þeir gengu fram á ísjaka í tjörninni við Hörpu í gærmorgun. Reyka Vodka, sem er einn helsti styrktaraðili Iceland Airwaves hafði komið þar fyrir 22 tonna ísjaka úr Jökulsárlóni í tilefni af hátíðinni í ár.
Tekinn var ísjaki sem brotnað hafði frá jöklinum og var á reki í átt til sjós en það tók í heildina um 48 klukkustundir að sækja ísjakann og koma honum til Reykjavíkur. Byggt hefur verið sérstakt sæti undir jökulinn í annarri tjörninni fyrir framan Hörpuna til að koma í veg fyrir ótímabæra bráðnun. Hvað afhjúpun ísjakans varðar segir Gunnar Lár Gunnarsson, markaðsstjóri Reykavodka, að nokkuð babb hafi komið í bátinn enda virðist vindkviða hafa ákveðið að eigna sér þann heiður.
„Upprunalega átti ekki að sýna ísjakann fyrr en klukkan 18:00 á miðvikudaginn í tilefni þess að Airwaves hátíðin væri byrjuð,“ segir Gunnar. „Sett var yfir ísjakann stórt segl sem átti að vernda hann fram að opnun en íslenskt veðurfar var hins vegar ekki á sama máli og vildi sýna gripinn strax.“
Ekki er ljóst hversu lengi ísjakinn mun halda stærð sinni en sagan segir að það eigi að frysta í um helgina, klakavinum til mikillar gleði.