Hvernig er hægt að losna við „pulsu“?

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir. mbl.is/Styrmir Kári

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea-Medica í Glæsibæ svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð út í „pulsu“ eftir keisaraskurð:

Sæl Þórdís,

Ég er með leiðinda „pulsu“ eftir keisaraskurð öðrum megin, örið er örmjótt og fallegt en svo hangir þessi „pulsa“ vinstra megin fyrir ofan örið sem er ansi ljótt. Ég er ca 10 kílóum of þung, en hef náð að grenna mig en „pulsan“ minnkar ekki. Ég hef stundað líkamsrækt í mörg ár og geri magaæfingar af krafti en það virðist ekki hjálpa mér.

Þekkir þú svona? Er hægt að lagfæra þetta? Hvað/hversvegna er þetta?

Bestu kveðjur, keisaradrottningin

Sæl og takk fyrir spurninguna, kæra keisaradrottning!

Stundum eftir keisaraskurð getur orðið inndráttur í örinu niður að vöðvunum sem veldur því að húðin og undirliggjandi fita hanga yfir örið. Magaæfingar eru alltaf góðar en laga þetta ekki. Ég hef oft hjálpað konum með þetta. Misjafnt er hve mikla aðgerð þarf að gera. Stundum er nóg að fitusjúga „pulsuna“ en oftast þarf að losa samvextina upp frá vöðvanum og fjarlægja hluta af húðinni.  Svo er alltaf best að vera sem næst sinni kjörþyngd (sú þyngd þar sem þér líður best og er raunhæf) áður en aðgerðin er gerð.

Gangi þér vel með þetta og bestu kveðjur,

Þórdís Kjartansdóttir

HÉR getur þú sent Þórdísi spurningu.

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is