„Ég gat ekki skilið norska sjávarútvegsráðherrann á annan veg en að hún væri sama sinnis og við, að það skipti miklu máli að finna lausn á makríldeilunni.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um fund sinn með Elisabeth Aspaker, nýjum sjávarútvegsráðherra Noregs, í Ósló í gær.
Sigurður Ingi var þar á ferð vegna fundar Norsk-íslenska viðskiptaráðsins og nýtti tækifærið til að ræða makríldeiluna við Aspaker. Hann tekur fram að fundurinn með Aspaker hafi ekki verið samningafundur. Spurður um væntingar sínar til fundarins um makrílmálið á Írlandi eftir helgi kveðst ráðherrann nú vera „hóflega bjartsýnn“.