Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er spurning frá einni rúmlega tvítugri sem langar í brjóstaminnkun.
Ég er rétt rúmlega 20 og langar virkilega í brjóstaminnkun. Mér hefur alltaf liðið illa út af brjóstunum, átt erfitt að finna föt og brjóstahaldara og er búin að vera með vöðvabólgu og bakverki frá því ég var um 15 ára. Ég er aðeins yfir kjörþyngd en er að reyna vinna í því. Brjóstin gera ræktina erfiðari þar sem enginn íþróttabrjóstahaldari nær að styðja nógu vel við þau. Ég er í háskóla og hef engan veginn efni á brjóstaminnkun sjálf og veit ekkert um tryggingarmál. Er hægt að fá aðgerðina niðurgreidda og þarf ég að komast í kjörþyngd áður en ég get komið í minnkun?
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Mjög stór brjóst geta verið viðurkennt heilsufarslegt vandamál með meðfylgjandi fylgikvillum og fjarvistum frá vinnu. Vegna þessa er í ákveðnum tilfellum brjóstaminnkun gerð inni á sjúkrahúsum og greidd af ríkinu (fyrir utan göngudeildargjöld og nú nýlega innlagnargjald). Þegar aðgerðin er gerð á kostnað ríkisins þurfa þær konur að uppfylla ákveðin skilyrði. Að þær séu sem næst sinni kjörþyngd, miðað við að fjarlægja u.þ.b. 500 g af hvoru brjósti, að þær reyki ekki og komi með tilvísun frá lækni.
Kona getur verið með óþægindi í öxlum, átt erfitt með að finna föt og brjóstahaldara ef brjóstin eru „síð og hangandi“ en það er ekki nóg til þess að ríkið borgi fyrir aðgerðina. Lýtalæknir þarf fyrir hverja konu að meta hvort hún fellur undir greiðsluþátttöku eða ekki. Fyrir konur sem eiga barneignir eftir er mikilvægt að vita að brjóstaminnkun getur haft áhrif á brjóstagjöf síðar.
Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Ef þér liggur eitthvað á hjarta getur þú sent Þórdísi spurningu. Smelltu HÉR.