Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð út í ör og hvernig sé hægt að laga það.
Ég lenti í slysi fyrir nokkrum árum og fékk ör beint fyrir neðan augabrúnina. Örið sjálft er alveg ljóst og ekkert áberandi en svæðið fyrir neðan augabrúnina er allt miklu þrútnara og lafir niður á augnlokið sjálft. Er hægt að gera augnpokaaðgerð bara á öðru auganu eða eru alltaf bæði augnlokin löguð í einu? Ég er bara 22 ára svo augnlokið hinum megin er ekkert farið að síga.
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Þú ert vissulega mjög ung fyrir augnlokaaðgerð og mjög ólíklegt að augnlokin séu farin að síga vegna aldurs! Í þínu tilfelli hljómar það eins og þetta sé í kjölfar slyssins. Stundum koma aldursbreytingar misjafnt fram í andlitinu, fer eftir andlitslagi og fleiru. Það er hægt að gera aðgerð aðeins á öðru augnlokinu ef aðgerðar er þörf aðeins öðrum megin. Ég ráðlegg þér að panta þér tíma hjá lýtalækni og meta hvað kemur til greina í þínu tilfelli.
Bestu kveðjur og gangi þér vel,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.