Þórdís Kjartansdóttir svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér spyr ein, sem er búin að léttast um 50 kíló, hvort svuntuaðgerð sé svarið fyrir hana.
Ég hef misst 50 kíló og stunda mikla líkamsrækt með þessum kílóamissi. Núna er maginn farinn að vera fyrir mér. Og ætli svunta sé ekki eina í stöðunni? Eins hvað þarf maður að vera lengi frá líkamsrækt eftir svuntuaðgerð?
Sæl og til hamingju með árangurinn.
Eftir svona mikið þyngdartap þarf oftast svokallaða svuntuaðgerð (abdominoplasty) til þess að losna við maga sem er „fyrir þér“. Stundum ef þyngdartapið gerist yfir langan tíma fylgir húðin með, sérstaklega hjá ungu fólki. En ef húðin neðan nafla er „hangandi“ þarf að fjarlægja hana með svokallaðri svuntuaðgerð. Í svuntuaðgerð er húð og undirliggjandi fita neðan nafla og að lífbeini fjarlægð, húðin ofan nafla strekkt niður og gert nýtt gat fyrir naflann.
Þú þarft að taka þér u.þ.b. þriggja vikna frí frá ræktinni eftir svona aðgerð. Síðan er mikilvægt að byrja rólega og hlusta á líkamann. Byrja á göngubretti, stigvél, hjóla og lyfta léttum lóðum. Forðast í 6-8 vikur mjög erfiðar æfingar og ekki æfingar í heitum sal í þrjá mánuði.
Kveðja, Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.