„Það eru litlar eða engar líkur á að þessi fundur standaríkjanna komist að endanlegri niðurstöðu eða ljúki samningum um makrílinn,“ segir Sigurgeir Þorgeirsson, aðalsamningamaður Íslands, í samtali við mbl.is, en fundur hófst í Cork-sýslu á Írlandi í gær um lausn makríldeilunnar og var gert ráð fyrir að hann stæði út vikuna. Sigurgeir segist ekki eiga von á að fundurinn standi svo lengi.
„Það er bara þannig að það eru í gangi viðræður á milli ráðherra einstakra ríkja og þeim mun ekki verða lokið í þessari viku. Á þessum fundi eru annars vegar í gangi tvíhliða fundir á milli ríkjanna þar sem menn ræða skiptingarmál og slíkt. En aðalverkefnið er hins vegar að fara yfir eftirlitskerfi með makrílveiðum, hvernig megi tryggja að tölur séu réttar og menn vigti fiskinn á sama hátt,“ segir hann ennfremur.
Spurður á hverju strandi segir hann það vera það sama og áður. Fyrst og fremst hvernig skipta eigi makrílkvótanum á milli strandríkjanna. Aðspurður nánar um það segist hann ekki geta farið nákvæmlega út í það. „Fundurinn er áætlaður út vikuna en ég hef þó ekki trú á því að hann geri það.“