Viðræðum um makríldeiluna, sem hófst síðastliðinn mánudag í Clonakilty á Írlandi, er lokið án niðurstöðu. Þetta staðfestir Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samninganefndar Íslands, í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann ekki liggja fyrir hvenær fundað verði næst um málið.
Upphaflega stóð til að fundurinn stæði út þessa viku en eins og Sigurgeir sagði í samtali við mbl.is í gær átti hann ekki von á að svo yrði eins og fundurinn væri að þróast. Fundinn sátu fulltrúar Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja en Rússar og Grænlendingar áttu áheyrnarfulltrúa.
Tvíhliða viðræður hafa átt sér stað að undanförnu á milli sjávarútvegsráðherra Íslands, Noregs og Færeyja og sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins. Þannig fundaði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, bæði með Elisabeth Aspaker, sjávarútvegsráðherra Noregs, og Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra sambandsins.