Ung kona sem starfaði hjá einu helsta tímariti Indlands á sviði rannsóknarblaðamennsku, hefur sagt upp störfum. Yfirmaður hennar er sakaður um að hafa brotið gegn henni kynferðislega.
Haft er eftir konunni í indverskum fjölmiðlum að hún hafi sagt upp hjá tímaritinu Tehelka til að losna undan þrýstingi.
Konan bað ritstjóra blaðsins í gær um að segja af sér vegna þvingana og áreitni. Hún segir að fjölskylda ritstjórans hafi heimsótt móður hennar í Nýju Delí og beðið hana um að „vernda“ hann.
Lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu en konan sakar ritstjórann Tarun Tejpal um að hafa ráðist á hana í tvígang á hóteli í Goa-ríki er starfsmenn tímaritsins voru þar saman komnir vegna ráðstefnu. Ritstjórinn hefur verið handtekinn en hefur óskað eftir að verða leystur úr haldi gegn tryggingu. Beiðni hans verður tekin fyrir á morgun.
Tejpal neitar sök og segist ætla að vera samvinnuþýður við frekari rannsókn málsins. Indverskir fjölmiðlar hafa hins vegar greint frá því að áður en að málið komst í hámæli hafi Tejpal boðist til að taka sex mánaða leyfi frá störfum vegna „misgjörða“ sinna.
Tejpal er fimmtugur 50 og einn af stofnendum tímaritsins Tehelka. Tímaritið er m.a. þekkt fyrir að afhjúpa kynferðisglæpi gegn konum.
Í tölvupósti sem ritstjórinn hefur sent starfsmönnum tímaritsins játar hann dómgreindarskort og að hafa rangtúlkað aðstæður.