Aberdeenháskóli liggur undir ámæli umhverfisverndarsinna fyrir að hafa rannsakað sýni úr hvölum sem veiddir voru hér. Fréttavefur The Scotsman greindi frá málinu.
Alþjóðlegi dýravelferðarsjóðurinn (IFAW) sakar vísindamenn við háskólann um að stuðla að „hvalaslátrun“ með því að taka þátt í rannsóknum með Hafrannsóknastofnun. The Scotsman segir að Ísland og Japan stundi vísindaveiðar á hvölum. IFAW hefur barist gegn þeim og hvetur háskólann til að slíta tengsl sín við hvalveiðar Íslendinga.
Talskona háskólans sagði að háskólinn hvorki styddi vísindaveiðar né mælti með því að hvölum væri fórnað í þágu vísindarannsókna. Hún lagði áherslu á að engir peningar hefðu verið greiddir vegna rannsóknanna og að reglum breska innanríkisráðuneytisins um dýratilraunir hefði verið fylgt.