Löndunarbann Evrópusambandsins á makríl og síld frá Færeyjum hefur haft talsverð áhrif á útflutning frá Færeyjum í haust.
Á netmiðlinum vp.fo í Færeyjum kom fram í síðustu viku að nú séu um 50 þúsund tonn af makríl í birgðum þar og ástæðan sé viðskiptaþvinganir ESB, en mest af makrílnum fór áður til landa sambandsins.
Söluverð makrílafurða frá Færeyjum hefur einnig lækkað og flutningskostnaður aukist sem leitt hefur til þess að 20% minna hafi orðið eftir hjá seljendum. Þetta er haft eftir Eyðun Rasmussen, sem gerir meðal annars út uppsjávarskipin Norðborg og Christian í Grótinum. Hann segir að skipuleggja þurfi nýjar flutningsleiðir og sölufólkið hafi nóg að starfa, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.